Talmeinafræðingar starfa hjá heilbrigðisstofnunum, sveitarfélögum og á eigin stofum. Hér er listi yfir þá sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga sem hafa samning við Sjúkratryggingar Íslands.
Börn og ungmenni:
Skv. samkomulagi sem ríki og sveitarfélög gerðu með sér árið 2014 taka sveitarfélög að sér að sinna talþjálfun vægari frávika og raskana hjá börnum og ungmennum. Er sú þjónusta skilgreind sem hluti af menntun þeirra nemenda. Talþjálfun barna og ungmenna með alvarlegri raskanir er á hendi heilbrigðiskerfis og greiða skjólstæðingar hluta af þeim kostnaði eins og ákvarðast í lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Með nýjustu breytingum á lögunum sem samþykktar voru í maí 2016 fellur talþjálfun undir hámarksþak á greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu frá og með 1. janúar 2017.
Samkomulag velferðarráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um talmeinaþjónustu
Fullorðnir:
Skjólstæðingar sem eru innlagðir á heilbrigðisstofnanir eiga ekki að greiða fyrir talþjálfun frekar en aðra heilbrigðisþjónustu sem þeir fá á meðan innlögn stendur. Íbúar á hjúkrunarheimilum standa þó verr að þessu leyti þar sem hjúkrunarheimilin hafa ekki ráðið til sín talmeinafræðinga þrátt fyrir skyldur sínar til að sinna endurhæfingarþörfum sinna íbúa. Kostnaður sjúklinga við talþjálfun á stofum eða á göngudeild heilbrigðisstofnana er ákvarðaður í lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Með nýjustu breytingum sem samþykktar voru í maí 2016 fellur talþjálfun undir hámarksþak á greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu frá og með 1. janúar 2017.
Í sumum tilvikum, þegar vandi fellur ekki undir skilgreiningar kostunaraðila eða þar sem erfitt hefur reynst að fá þjónustu talmeinafræðings á vegum stofnunar hafa einstaklingar greitt sjálfir fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga.