Gagnreynd meðferð eða gagnreynd meðferðarnálgun er mikilvægur þáttur í starfi talmeinafræðinga eins og annarra fagstétta innan heilbrigðiskerfisins. Gagnreynd meðferð, EBP, vísar til þess að taka ákvörðun um meðferð hvers og eins skjólstæðings út frá þeirri þekkingu sem liggur fyrir á hverjum tíma, með því að samþætta klíníska reynslu, viðhorf og vilja sjúklings og þær upplýsingar sem fengist hafa úr kerfisbundnum rannsóknum.

Við notum gagnreynda meðferð til að vera viss um að meðferðin sem við notum sé sú ákjósanlegasta fyrir skjólstæðing okkar. Við verðum meðvituð um eigin hlutdrægni og vinnum að því að:

  1. auka ávinning skjólstæðings
  2. draga úr þeirri skaðsemi sem getur orðið (líkamlegri, andlegri, fjárhagslegri)
  3. virða sjálfsstæði og rétt  skjólstæðings til að taka ákvarðanir varðandi eigið líf
  4. sýna réttlæti, veita þjónustu á sanngjarnan hátt og mismuna ekki skjólstæðingum

Mikilvægt er að hafa í huga að aðferðir gagnreyndar meðferðar fjalla ekki um að leita að staðfestingu á því sem maður heldur eða telur sig vita. Gagnreynd meðferðarnálgun er notuð til að draga úr óvissu um meðferð í faginu og hjálpa til við ákvarðanatöku tengda meðferðinni.

Hér má finna bækling á vegum ástralskra samtaka um gagnreynda meðferðarnálgun innan talmeinafræði. Það gefur gott yfirlit um gagnreynda meðferðarnálgun, bakgrunn, rökstuðning og hvernig best er að svara klínískum spurningum með hliðsjón af rannsóknum, reynslu og viðhorfum sjúklings.