Félag talmeinafræðinga á Íslandi (FTÍ) var stofnað þann 11. september 1981, en hét þá Félag talkennara og talmeinafræðinga. Nafni félagsins var síðan breytt árið 2013 í Félag talmeinafræðinga á Íslandi (FTÍ) þar sem félagið samanstóð nær eingöngu af talmeinafræðingum og sjaldgæft að nýir talkennarar útskrifuðust til starfa. Markmið FTÍ er að sameina alla talkennara og talmeinafræðinga, fylgja eftir hagsmunum þeirra og efla samtök og samheldni þeirra á milli.

Félagið er í samvinnu við erlend fagfélög, bæði á Norðurlöndum, í Evrópu og Vestanhafs. FTÍ stendur einnig fyrir fræðslu og kynningarstarfsemi á meðal félagsmanna sinna og gefur út tímaritið Talfræðinginn, sem kemur út óreglulega. Öll tölublöð Talfræðingsins hafa verið sett á rafrænt form og eru þau aðgengileg hér á síðunni. Eftir stofnun félagsins 1981 hófu talkennarar baráttu fyrir réttindum sínum og verndun starfsheitisins, og hefur starfsheitið talmeinafræðingur verið löggilt starfsheiti frá árinu 1987. Starfsleyfi er nú gefið út af Landlæknisembættinu.