Mál og tal eru mikilvægur þáttur í lífi hvers manns og skiptir miklu máli fyrir andlega og félagslega líðan. Erfiðleikar í sambandi við mál, tal og tjáskipti geta komið fram hjá fólki á öllum aldri. Talmeinafræðingar vinna við greiningu og íhlutun á mál- og talmeinum, auk kyngingartregðu. Dæmi um vanda sem talmeinafræðingar sinna eru t.d. málþroskaröskun, framburðar- og hljóðkerfisraskanir, stam, raddveilur, tjáningarerfiðleika eftir heilablóðfall og kyngingartregðu. Einnig meta þeir þörf fyrir og veita þjálfun í óhefðbundnum tjáskiptaleiðum. Ráðgjöf er mikilvægur þáttur í starfi talmeinafræðinga.

Talmeinafræðingar starfa í leikskólum, skólum, á sjúkrahúsum, endurhæfingarstöðvum, greiningarteymum og á eigin stofum. Talmeinafræðingar vinna í nánu samstarfi við kennara, lækna, sálfræðinga og aðrar uppeldis-og heilbrigðisstéttir. Skjólstæðingar eru á öllum aldri, allt frá ungabörnum til aldraðra.

Talmeinafræði er fag í stöðugri þróun sem fylgir framförum og nýjungum innan heilbrigðis- og menntakerfisins. Talmeinafræðingar leggja mikla áherslu á endurmenntun og rannsóknir í störfum sínum.