Til að öðlast starfsleyfi sem talmeinafræðingur þarf að hafa lokið meistaranámi í talmeinafræði og vinna í 6 mánuði undir handleiðslu talmeinafræðings. Háskóli Íslands hefur boðið upp á nám í talmeinafræði frá hausti 2010 en þar áður sóttu íslenskir talmeinafræðingar menntun sína erlendis, t.d. til Norðurlanda, Bretlands, Þýskalands, Bandaríkjanna og Kanada.

Talmeinafræði til meistaraprófs er kennd á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Nám í talmeinafræði er þverfræðilegt nám sem miðar að því að veita vísindalega menntun og þjálfun í talmeinafræði og búa nemendur undir störf talmeinafræðinga og vísindastörf sem tengjast greininni. Það er vistað í læknadeild sem hefur umsjón með því og brautskrást nemendur þaðan. Um er að ræða tveggja ára (fjögurra missera) rannsóknartengt nám í talmeinafræði, auk starfsþjálfunar. Námið er 120 einingar og telst fullgilt MS-próf. Inntökuskilyrði eru BA/BS/BEd-próf með fyrstu einkunn.

Nemendur þurfa að ljúka 120 einingum, 90 einingum í námskeiðum í skyldukjarna sem ákveðin eru af námsstjórn og tilgreind í kennsluskrá (eða sambærileg námskeið sem námsstjórn samþykkir sem valnámskeið) og 30 einingum í rannsóknarverkefni.

Markmið námsins er að veita nemendum vísindalega þjálfun og búa þá fyrst og fremst undir störf talmeinafræðinga á ýmsum vettvangi (t.d. á sjúkrastofnunum, endurhæfingarstöðum, á þjónustumiðstöðvum, heilsugæslustöðvum, leik- og grunnskóla eða einkareknum talmeinastofum og vísindastörf af ýmsu tagi).

Upplýsingar um námið við Háskóla Íslands er að finna hér