Starfssvið

Rétt til að kalla sig talmeinafræðing og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis. Talmeinafræðingar skulu hafa lokið MSc/MA meistaragráðu í talmeinafræði frá viðurkenndum háskóla og sex mánaða verklegri þjálfun undir leiðsögn talmeinafræðings að námi loknu.

Á heimasíðu Landlæknisembættis eru upplýsingar um starfsleyfi talmeinafræðinga:

https://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisstarfsfolk/starfsleyfi/

Störf talmeinafræðinga eru mjög fjölbreytt og felast í vinnu með börnum og fullorðnum skjólstæðingum auk náinnar samvinnu við aðra fagaðila innan heilbrigðis- og kennarastétta.

Talmeinafræðingar þurfa að hafa góða þekkingu á 1) almennum þroska barna (sérstaklega hvað varðar tal-, mál- og hreyfiþroska), 2) tauga- og líffærafræði efri meltingar-, öndunar- og talfæra, 3) vitsmunaþáttum sem stýra hugsun, gerðum og tjáningu, ásamt grunnþekkingu á margvíslegum heila- og taugasjúkdómum. Einnig er mikilvægt að talmeinafræðingar hafi góða þekkingu og færni í íslensku tal- og ritmáli. Talmeinafræðingar starfa eftir tilvísunum frá lækni en vinna þó sjálfstætt að sínum greiningum og meðferð án beinnar handleiðslu annarra sérfræðinga. Þeir þurfa að búa yfir góðri samskiptafærni og vera lausnamiðaðir í hugsun. Þeir útbúa próf, meðferðar- og fræðsluefni og bera ábyrgð á faglegri þróun starfsins auk þess að sinna fræðastarfi og kennslu. Símenntun í formi greinalesturs, námskeiða og fyrirlestra gegnir mikilvægu hlutverki í starfi talmeinafræðinga til að þeir geti byggt meðferð sína á gagnreyndum aðferðum.

Starfssvið talmeinafræðinga

Aðstoðarmenn

Talmeinafræðingar mega ráða aðstoðarmenn til starfa. Í þessu skjali má finna upplýsingar og reglur varðandi starfssvið aðstoðarmanns talmeinafræðings.

Reglur um aðstoðarmann talmeinafræðings