Stjórn FTÍ hefur sent frá sér eftirfarandi opið bréf til Reykjalundar vegna frétta í síðustu viku um að deild talmeinaþjónustu innan stofnunarinnar yrði lögð niður.
OPIÐ BRÉF TIL STJÓRNAR REYKJALUNDAR
19. janúar 2026
Á dögunum bárust fréttir af því að stjórn Reykjalundar hefði valið að leggja niður talmeinaþjónustu í heild sinni og sagði upp þeim tveimur talmeinafræðingum sem þar störfuðu. Að sögn stjórnar gera þau ráð fyrir að ráða tvo talmeinafræðinga í verktöku til að sinna hópnum sem þarna sækir þjónustu og viðurkenna þau þar með að þessi þjónusta er starfseminni nauðsynleg.
Félag talmeinafræðinga á Íslandi (FTÍ) gagnrýnir þessa ákvörðun harðlega. Á Reykjalundi hefur talmeinaþjónusta verið hluti af sérhæfðri þverfaglegri endurhæfingu í tæp 50 ár og er órjúfanlegur hluti af meðferð fjölbreytts skjólstæðingahóps sem þangað sækir endurhæfingu vegna flókinna og erfiðra veikinda.
Fáir valkostir eru í boði fyrir einstaklinga sem þurfa á áframhaldandi talþjálfun að halda eftir að endurhæfingu á bráðastigi lýkur, ef frá eru talin úrræði á borð við Kjark og Takt eða einkastofur. Með því að leggja niður talmeinaþjónustu er verið að takmarka verulega aðgengi skjólstæðinga Reykjalundar að mikilvægum þætti í endurhæfingu þeirra. Á Reykjalundi hefur byggst upp verðmæt sérþekking sem vandfundin er annars staðar. Góður árangur í talþjálfun á staðnum hefur byggst á möguleika á ákafri þjálfun, náinni samvinnu fagstétta, þátttöku á teymisfundum og stöðugri eftirfylgni í daglegu umhverfi sjúklings. Því er óraunhæft að ætla að útvista þjónustunni til verktaka eða annarra stofnana þar sem slíkt fyrirkomulag tryggir ekki sambærilega þjónustu.
Meðal þess sem talmeinafræðingar á Reykjalundi sinna eru: Tal-, mál- og raddtruflanir; lestrar- og málskilningserfiðleikar sem koma til vegna ákomins heilaskaða, heilablóðfalls, taugasjúkdóma á borð við Parkinson, MS; lungna- og hjartasjúkdóma. Auk þess hafa komið inn á þeirra borð einstaklingar með starfræn einkenni og langvinn einkenni tengt Covid.
Stjórn FTÍ vill beina sjónum sérstaklega að því að þeim tveimur talmeinafræðingum sem þar störfuðu var gert að hætta störfum samdægurs og því varð rof í þjónustu til skjólstæðinga þeirra. Fólk var því svipt mikilvægum þætti í sinni endurhæfingu, án aðlögunartíma og án þess að önnur sambærileg úrræði væru til staðar til að taka við meðferðinni. Slík framkvæmd samræmist ekki þeirri ábyrgð sem heilbrigðisstofnun ber gagnvart skjólstæðingum sínum.
Á Reykjalundi er ein lengsta samfellda saga um endurhæfingu fullorðinna á Íslandi. Þar hefur einnig farið fram umfangsmikið þróunar- og rannsóknarstarf á sviði talmeinafræði, meðal annars þýðing og staðfærsla prófa og matstækja. Talmeinafræðingar þar hafa ennfremur stutt við námsleið í talmeinafræði með því að taka til sín nema í starfsþjálfun, og er nú starfsnám nokkurra nema í uppnámi vegna þessa gjörnaðar.
FTÍ skorar á stjórn Reykjalundar að endurskoða þessa ákvörðun með hagsmuni skjólstæðinga stofnunarinnar í huga. Með því að leggja niður talmeinaþjónustu stofnunarinnar í núverandi mynd er verið að stíga stórt skref aftur á bak í þjónustu við þá hópa sem sækja Reykjalund. Talmeinaþjónusta er ómissandi þáttur í sérhæfðri þverfaglegri endurhæfingu og ef sú þjónusta er fjarlægð hefur það óhjákvæmilega áhrif á lífsgæði og endurhæfingarmöguleika mjög viðkvæms hóps.
F.h. Félags talmeinafræðinga á Íslandi,
Heiða D. Sigurjónsdóttir, gjaldkeri
Jane Petra Gunnarsdóttir, ritari
Signý Gunnarsdóttir, meðstjórnandi
Sólveig Arnardóttir, meðstjórnandi
Björg Einarsdóttir, varamaður
Gunnhildur Gunnarsdóttir, varamaður
Opið-bréf