Starfsreglur siðanefndar Félags talmeinafræðinga á Íslandi
- Aðalfundur FTÍ kýs þrjá menn í siðanefnd félagsins til tveggja ára í senn. Nefndin skiptir með sér verkum. Við úrlausn erfiðra ágreiningsmála getur nefndin leitað ráðgjafar hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.
- Hver sá sem telur að siðareglur FTÍ hafi verið brotnar getur sent erindi til siðanefndar. Siðanefnd tekur aðeins fyrir mál sem henni berast með skriflegum rökstuðningi og nákvæmri vísun í siðareglur félagsins. Jafnframt skal siðanefnd afgreiða öll mál skriflega. Siðanefnd er heimilt að vísa máli frá með rökstuðningi sjái hún ástæðu til þess.
- Siðanefnd gætir þess að fyllsta trúnaðar og nafnleyndar sé gætt varðandi öll málsgögn og samtöl vegna meðferðar mála.
- Siðanefnd metur hvort einhver nefndarmanna sé vanhæfur til að fjalla um erindi og kærumál vegna tengsla við málsaðila. Sé nefndarmaður úrskurðaður vanhæfur til að fjalla um mál skal stjórn FTÍ tilnefna annan í hans stað.
- Siðanefnd heldur gjörðabók og starfar á grundvelli siðareglna FTÍ. Undir öllum kringum-stæðum skulu hlutaðeigandi málsaðilar leggja fram skriflegar greinargerðir. Aðilar máls geta óskað eftir því að mæta fyrir siðanefnd til að útskýra mál sitt en annars fer öll málsmeðferð fram skriflega:
- Siðanefnd berst skriflegt erindi með lýsingu á málsatvikum og vísan í þá siðareglu/r, sem taldar hafa verið brotnar.
- Nefndin óskar eftir upplýsingum frá þeim aðilum sem erindið vísar í, annað hvort á fundi, í síma eða skriflega.
- Nefndin aflar frekari upplýsinga hjá viðeigandi aðilum, ef við á.
- Siðanefnd sendir álit til þess sem erindið sendir og þess sem erindið fjallar um.
Heimilt er að draga erindi til baka hvenær sem er áður en siðanefndarmenn hafa undirritað úrskurð. Einnig er mögulegt að ljúka máli með sátt milli aðila á sameiginlegum fundi ef málsaðilar óska eftir því . Siðanefnd skal taka mál fyrir svo fljótt sem auðið er og hraða eftir föngum úrskurði sínum. Ef siðanefnd er ekki einhuga um úrskurð skal meirihlutaálit ráða niðurstöðu. Siðanefnd er skylt að ná fram niðurstöðu og má ekki víkja frá máli fyrr.
- Hafi viðkomandi verið félagsmaður FTÍ þegar meint brot er talið hafa verið framið, skal siðanefnd FTÍ fjalla um málið. Ef brot reynist á rökum reist skal siðanefnd kveða skýrt á um hvort brotið var ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt. Ef brot er ámælisvert skal siðanefnd veita viðkomandi félagsmanni áminningu. Ef brotið er alvarlegt eða mjög alvarlegt vísar siðanefnd málinu til stjórnar FTí ásamt áliti sínu. Stjórn félagsins tekur ákvörðun um hvort vísa skuli viðkomandi úr félaginu. Í öllum tilvikum skulu málsaðilum og stjórn FTÍ kynntar álitsgerðir siðanefndar.
- Stjórn FTÍ er heimilt að fengnu samþykki siðanefndar að birta félagsmönnum niðurstöður eða álitsgerðir siðanefndar sem varða alvarleg eða mjög alvarleg brot.
- Siðanefnd skal vera vakandi fyrir þeim ágöllum sem vera kunna á siðareglum þessum og starfsreglum siðanefndar og leggja fyrir stjórn FTÍ tillögur um breytingar á þeim ef þurfa þykir.
Samþykkt á aðalfundi Félags talmeinafræðinga á Íslandi á Hauganesi 14. september 2019
Orðalagsbreytingar gerðar í september 2019.
Rannveig Rós Ólafsdóttir
Sonja Magnúsdóttir
Þórunn Hanna Halldórsdóttir