Skip to content
Siðareglur FTÍtac2016-08-06T11:15:54+00:00
Siðareglur Félags talmeinafræðinga á Íslandi
Skyldur gagnvart skjólstæðingi
- Frumábyrgð talmeinafræðinga* er að standa vörð um sjálfstæði og velferð skjólstæðinga. Þeir skulu veita skjólstæðingum eða forráðamönnum þeirra upplýsingar um niðurstöður greiningar , valkosti í meðferð og þau úrræði sem fyrir hendi eru. Áhersla skal lögð á rétt þeirra til sjálfsákvörðunar.
- Talmeinafræðingar skulu veita skjólstæðingum sínum bestu hugsanlegu meðferð sem miðar að því að hæfa þá eða endurhæfa að því marki sem vandkvæði þeirra leyfa.
- Talmeinafræðingar veita faglega þjónustu óháð kynferði, þjóðerni, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum, þjóðfélagsstöðu eða aldri skjólstæðinga.
- Talmeinafræðingar skulu ekki taka upp persónulegt samband við skjólstæðinga sem breytt gæti gangi meðferðar og ekki notfæra sér sambönd sem þeir hugsanlega öðlast í gegnum starf sitt í ábata eða hagsmunaskyni.
- Talmeinafræðingar skulu ekki láta starfsframa eða fjárhagslegan ábata hafa áhrif á framgang meðferðar. Þeir skulu ekki taka við gjöfum eða fé eða annars konar hvatningu sem haft gæti áhrif á faglegt mat.
- Talmeinafræðingar skulu meta árangur meðferðar og hætta eða gera hlé á henni ef sýnt er að skjólstæðingi gagnist hún ekki.
- Talmeinafræðingar skulu ekki fyrirfram lofa tilteknum árangri af meðferð.
- Láti talmeinafræðingar aðstoðarfólk sitt eða nema sjá um meðferð ber að sjá þeim fyrir nægilegri leiðsögn og taka ábyrgð á verkum þeirra. Þegar nemi er látinn annast meðferð í menntunarskyni undir leiðsögn skal viðkomandi skjólstæðingi eða forsjármanni gerð grein fyrir því og þeir hafa ávallt rétt á að hafna þeirri meðferð.
Trúnaður við skjólstæðinginn
- Talmeinafræðingar eru bundnir þagnarskyldu varðandi þær upplýsingar er þeim er trúað fyrir í starfi um einkahagi fólks og sömuleiðis um það hverjir skjólstæðingar þeirra eru. Þetta gildir einnig að skjólstæðingi látnum.
- Talmeinafræðingar mega gefa upplýsingar um persónulega og heilsufarslega hagi skjólstæðinga þegar það er nauðsynlegt með tilliti til þarfa og meðferðar skjólstæðingsins. Í þeim tilvikum skal leitað samþykkis skjólstæðings, forráðamanns eða nánasta ættingja. Í þeim tilvikum þar sem landslög kveða á um upplýsingaskyldu til stjórnvalda skulu upplýsingarnar takmarkast við það sem skiptir máli fyrir meðferð máls.
- Skýrslur um skjólstæðinga eru trúnaðarmál. Aðgang að þeim hafa aðeins skjólstæðingar eða forráðamenn þeirra og tilvísunaraðilar. Óski aðrir talmeinafræðingar eða aðrar starfstéttir eftir skriflegum upplýsingum þarf leyfi skjólstæðings eða forráðamanns hans. Í þeim tilvikum ber að minna á þagnarskyldu.
- Talmeinafræðingar skulu ganga þannig frá greinargerðum sínum að þær misskiljist ekki og ekki sé hægt að misnota þær. Skýrslur skulu gerðar með viðtakanda í huga.
- Skipti skjólstæðingur um talmeinfræðing skulu þeir hafa samráð og skiptast á faglegum upplýsingum, nema skjólstæðingur óski eftir að það sé ekki gert.
- Séu upplýsingar um skjólstæðinga notaðar í kennslu, greinaskrifum eða á annan opinberan hátt skal séð til þess að ekki sé hægt að bera kennsl á þá. Sé ætlunin að nota feril einstaks skjólstæðings í slíkum tilgangi og á þann veg að ekki er unnt að dylja um hvern er fjallað, skal leita samþykkis skjólstæðings eða forráðamanns hans.
Menntun og viðhald hennar
- Starfandi talmeinafræðingar skulu hafa yfir að ráða þeirri menntun sem viðurkennd er af félagi þeirra og viðkomandi yfirvöldum. Þeir skulu búa yfir þeirri hæfni sem fagið krefst og hafa yfirgripsmikla þekkingu á töluðu og rituðu formi þess tungumáls sem þeir vinna með í starfi sínu.
- Talmeinafræðingar skulu viðhalda fagþekkingu sinni og bæta við hana í þeim tilgangi að geta boðið skjólstæðingum sínum bestu hugsanlegu meðferð. Þeir skulu hætta eða gera hlé á faglegu starfi, komi til þess að tímabundinn misbrestur verði á faglegri hæfni þeirra.
Skyldur tengdar rannsóknarvinnu
- Talmeinafræðingar sem starfa að rannsóknum eða taka þátt í rannsóknarverkefnum skuldbinda sig til að fara að gildandi lögum og vísindalegum siðareglum, innlendum sem alþjóðlegum, sem fjalla um það svið sem þeir rannsaka.
- Talmeinafræðingar gera grein fyrir rannsóknaniðurstöðum sínum og þeirri þýðingu sem þær hafa. Leitast skal við að ganga þannig frá greinargerðum að ekki sé hægt að misskilja þær eða misnota.
- Talmeinafræðingar skulu kappkosta að deila niðurstöðum rannsókna sinna með öðrum talmeinafræðingum.
- Talmeinafræðingar skulu einungis gefa út verk í eigin nafni, séu þau algerlega samin af honum sjálfum (samkvæmt höfundaréttarlögum). Sé um að ræða þýðingu, staðfærslu eða „eftirlíkingu“, skal nákvæmra heimilda getið.
Ábyrgð gagnvart samfélaginu
- Fagfélag talmeinafræðinga og einstakir félagar þess skulu kappkosta að upplýsa almenning um talmeinafræði sem starfsgrein og þá þjónustu sem talmeinafræðingar geta veitt. Varast ber að gefa vanhugaðar yfirlýsingar um nýjar aðferðir sem ekki eru nægilega rannsakaðar
- Talmeinafræðingar skulu kappkosta að viðhalda og auka framboð þjónustu.
- Þegar talmeinafræðingar gefa yfirlýsingar í nafni starfsgreinarinnar skulu þær vera málefnalegar og nákvæmar í framsetningu. Talmeinafræðingar sem taka þátt í að svara bréfum opinberlega skulu aðeins veita almennar ráðleggingar.
- Talmeinafræðingar skulu ekki verjast gagnrýni skjólstæðings opinberlega, brjóti það í bága við reglur um þagnarskyldur.
Skyldur gagnvart öðrum talmeinafræðingum
- Talmeinafræðingar skulu stuðla að virðingu starfstéttarinnar. Þeir skulu leitast við að eiga góða samvinnu við aðra talmeinafræðinga.
- Talmeinafræðingar skulu ekki smala sér skjólstæðingum með því að bera lof á eigin hæfni eða veikja traust skjólstæðings á öðrum starfandi talmeinafræðingum.
- Talmeinafræðingar, sem starfa á opinberum stofnunum eða einkastofnunum skulu ekki gangast undir reglur eða skyldur sem takamarka faglegt sjálfstæði þeirra og heilindi. Þeir skulu styðja starfsfélaga í að verja sjálfstæði sitt. Þeir skulu ekki starfa með aðilum sem stunda ólöglega eða ófullnægjaandi meðferð talmeina. Þeir skulu ekki í ábaraskyni flytja meðferð skjólstæðings af opinberri stofnun yfir á einkarekna stofnun.
- Talmeinafræðingar, sem eiga þátt í að vinna bækur, tæki eða efni til nota í þágu starfsins og stéttarinnar, skulu setja mál sitt fram á hlutlægan hátt. Þeir eru hvattir til að miðla faglegri þekkingu sinni, reynslu og hagnýtri kunnáttu til stéttarsystkina sinna og nema í faginu. Ekki skal setja persónulegan eða fjárhagslegan ávinning ofar faglegri ábyrgð.
Skyldur gagnvart öðrum starfsstéttum
- Talmeinafræðingar skulu vera tilbúnir að kynna starf sitt, innihald þess og aðferðir fyrir öðrum starfsstéttum og taka þátt í samvinnu með öðrum starfsstéttum þar sem það á við.
- Talmeinafræðingar skulu bjóða skjólstæðingum sínum bestu hugsanlegu meðferð og forðast að fara út fyrir sitt svið. Þeir skulu vísa á aðrar starfstéttir þegar þess gerist þörf.
- Ekki er heimilt að taka við umboðslaunum, afslætti eða annars konar launum fyrir tilvísun til annarra fagstétta.
- Talmeinafræðingar skulu virða sérhæfni, skyldur og ábyrgð annarra starfsstétta. Þeir skulu vera vakandi fyrir því að færni, tækni og styrkur annarra starfsstétta geti nýst skjólstæðingi þeirra.
*Á einnig við talkennara.