Saga félagsins 1953 – 1989

Ritað af Birni G. Eiríkssyni árið 1996

Í upphafi er rétt að víkja í örfáum orðum að byrjun talkennslu, þ.e.a.s. í þeirri mynd sem vér talkennarar þekkjum nú. Það mun hafa verið á árunum 1953 og 1954, sem fyrstu talkennararnir komu til starfa (sem talkennarar) í Reykjavíkurskólahéraði, eins og skólaumdæmið hét þá. Fyrstu talkennararnir voru Björn Guðmundsson, er kom til starfa 1953 og Guðborg Þorsteinsdóttir ári seinna, eða 1954. Árið 1960 kom svo Ingibjörg Stephensen.

Björn stundaði nám í Danmörku og Noregi og fékk próf þaðan sem talkennari; prófið tók hann í Danmörku 1952. Guðborg stundaði sitt sérnám í Danmörku, þar sem hún kynnti sér kennslu daufdumbra 1938, en Ingibjörg í Englandi (The School of Speech and Drama). Svona í framhjáhlaupi má aðeins geta þess að fyrstu einstaklingarnir er fóru utan til náms ,,í faginu”, ef svo mætti að orði komast, voru Björg Eyþórsdóttir Forchhammer, sem árið 1932 fór utan til Danmerkur að nema kennslu málhaltra, en ílentist þar. Hólmfríður Hemmert nam kennslu málhaltra í Danmörku og tók próf ,,í faginu” 1934 og aftur sams konar próf í Berlín 1938. Brandur Jónsson, er seinna varð skólastjóri ,,Málleysingjaskólans”, tók talkennarapróf 1940 eftir að hafa numið talkennslu í Danmörku og Noregi. Brandur starfaði aldrei sem sérstakur talkennari í Reykjavíkurskólahéraði. Hann er því ekki talinn með hópi fyrstu talkennara skólahéraðsins. Það er svo annað mál, að þótt hannværi ekki ráðinn sem sérstakur talkennari á vegum fræðsluráðs skólahéraðsins, þá sinnti hann einnig talkennslu. Ef til vill er upphaf talkennslunnar hjá oss Íslendingum einmitt helst að leita í  ,,Málleysingjaskólanum” sem Brandur Jónsson veitti forstöðu.

Smátt og smátt fór sérkennurum og þar á meðal talkennurum fjölgandi og var því eigi við öðru að búast, en sérkennarar hæfu brátt að huga örlítið að eigin félagsstofnun. Líklegt er að flestir þeir kennarar er hér að framan hafa verið nefndir, hafi jafnframt verið félagar í Sambandi íslenskra barnakennara eins og KÍ hét þá. Hvað sem því líður, þá er það um og upp úr 1969 að sérkennarar fóru sterklega að huga að eigin félagsstofnun. Af formlegri stofnun Félags íslenskra sérkennara (FÍS) varð þó eigi fyrr en seinna, eða árið 1970. Sama ár hafa líklega á öllu landinu talist níu talkennarar. Talkennarar töldust raunar flestir jafnframt vera sérkennarar og tóku sem slíkir þátt í félagsstarfi FÍS. Engu að síður fóru talkennarar, þá tímar liðu fram að hyggja að stofnun sérstakra samtaka innan síns hóps. Nokkrar vangaveltur um þessi mál voru kringum árið 1975, 1976 og 1979.

Nú var það þannig að þeir talkennarar, er frá Noregi voru í greininni menntaðir, voru jafnframt flestir félagar í Norsk logopedlag. Íslenskir ,,logopedar” óskuðu þá fljótlega eftir því að verða sérstök deild innan Norsk logopedlag og fengu fyrir því vilyrði. Var því slík deild mynduð þar og hélst við um hríð. Þess má til fróðleiks og gamans geta að Norsk logopedlag var stofnað á Granhaug (rétt utan við Osló) hinn 4. mars 1948. Einn hvatamaður að stofnun norska félagsins var einmitt Lorang Hansen er lengi var skólastjóri (eða forstöðumaður) á Bredtvet.

Fyrsta skrefið í þá átt að stofna sérstök samtök talkennara hér heima var stigið þegar mynduð var sérstök deild talkennara innan FÍS. Seinna skaut upp þeirri hugmynd, að stofna sérstakt félag talkennara er óháð teldist FÍS, að mestu ef þá eigi að öllu leyti og voru mál þessi m.a. til umræðu á allmörgum fundum á árunum 1975, 1976 og 1977, eins og áður hefir verið vikið að. Í kringum árin 1978 og 1979 hafði þessum málum svo langt fram miðað, að boðað var til sérstaks stofnfundar þessa fyrirhugaða félags í húsakynnum Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg, þar sem heyrnardeildin var til húsa. Eigi voru samt allir talkennarar, er þá voru starfandi á eitt sáttir með þá hugmynd. Efnt hafði verið til sérstakrar atkvæðagreiðslu um þetta mál m.a. og eitthvað fleira sem ég man nú eigi hvað var. Flestir fundarmenn töldu samt að lokinni atkvæðagreiðslu að meirihluti hefði fengist fyrir þessum gjörðum. Kosin hafði verið sérstök stjórn til bráðabirgða eða til undirbúnings með Birgi Ás í sæti formanns. Aðrir í þessari stjórn voru Friðrik Rúnar Guðmundsson og einhver þriðji maður sem ég man eigi lengur hver var.

Málið komst þó svo langt að samin voru drög að sérstökum lögum fyrir félagið. Það mál varð hins vegar aldrei endanlega útkljáð og lá málið í láginni um hríð. Áður höfðu verið samþykktar siðareglur fyrir talkennara, þá höfðu og allir undirritað eiðstaf um þagnarskyldu.

Seinast kom svo að því, að upp úr gamla félaginu var stofnað Félag talkennara og talmeinafræðinga (FTT) hinn 11. september 1981 að Grettisgötu 89 og er sá dagur inn formlegi stofndagur hins nýja félags, er á þessu ári , 1996, er 15 vetra gamalt. Árið 1984 kom út (fyrsta tölublað) 1. hefti af málgagni félagsins, tímarit (sem jafnframt er kallað fréttablað) TALFRÆÐINGURINN, er upp frá því hefir komið út árlega.

Þegar á árinu 1983 eða fyrr hófust talkennarar handa um baráttu fyrir réttindum sínum og löggildingu starfsheitis. Löggilding hefir nú að mestu fengist fyrir heitinu talmeinafræðingur, þó nota ekki allir talkennarar þetta starfsheiti, þ.e.a.s. þeir sem starfa innan skólakerfisins eru nefndir talkennarar. Árið 1970 töldust talkennarar á landinu níu eða tíu, en árið 1984 voru á félagsskrá 40 talkennarar og 1989 u.þ.b. 50. Fjölgun í stéttinni var nokkuð ör á þessu tímabili, hin síðari ár hefir þó dregið út aukningunni.

FTT var í allmörg ár skilgreint sem deild innan FÍS. Hins vegar má segja að félagið hafi að mestu, ef þá ekki öllu leyti, starfað þessi ,,sambandsár” sem sjálfstætt væri án nokkurra afskipta af hálfu FÍS. Fyrir fáum árum sleit svo FTT öll tengsl við FÍS og starfar nú sem sjálfstætt félag.

Ég hefi hér í fáum dráttum reynt að rekja upphaf og sögu ,,eldra félagsins”, en saga yngra félagsins er enn óskráð og verður svo líklega enn um hríð.