Félag talmeinafræðinga á Íslandi og Málefli – hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með tal – og málþroskaröskun bjóða til málþings um málþroskaröskun DLD þann 8. mars nk.

Skráning á málþingið fer fram á tix.is en það er sniðið fyrir allt fagfólk sem starfar með börnum og unglingum í skólakerfinu og í þágu þeirra; kennurum, deildarstjórum stoðþjónustu, skólastjórnendum, sálfræðingum, þroskaþjálfum, félagsráðgjöfum, námsráðgjöfum og fl. Allir eiga erindi bæði foreldrar og fagfólk.

Félag talmeinafræðinga á Íslandi og Málefli telja gríðarlega mikilvægt að styðja við kennara og annað fagfólk, upplýsa, fræða um einkenni málþroskaröskunar DLD og afleiðingar þess. Mikilvægt er að það séu úrræði í skólaumhverfinu til að mæta þörfum þessa hóps. Til þess þarf öfluga samvinnu milli talmeinafræðinga, heimilis og skóla í takt við lög um farsæld í þágu barna.

Aðalfyrirlesari málþingsins er prófessor Victoria Joffe, virtur talmeinafræðingur og deildarforseti háskóla í Essex (School of Health and Social Care at the University of Essex). Victoria Joffe hefur gríðarlega reynslu af starfi með börnum og unglingum með málþroskavanda og er leiðandi í sínu fagi. Hún sérhæfir sig í þjálfun og ráðgjöf kennara og þverfaglegri samvinnu fagaðila í skólakerfinu með það að markmiði að veita börnum með tal- og málörðugleika bestu mögulegu þjónustu. Victoria Joffe mun flytja erindi sitt á ensku á mjög aðgengilegan og skýran hátt.

Foreldri á vegum Máleflis mun koma og segja frá sinni upplifun og reynslu af því að eiga barn með málþroskaröskun DLD og í lok málþingsins verða umræður – hvernig getum við mætt börnum með málþroskaröskun DLD betur í skólaumhverfinu í dag?

Málþingið er styrkt af Mennta – og barnamálaráðuneytinu.

Viðburður á Facebook