Samtökin Málefli voru stofnuð þann 16. september 2009. Helstu markmið samtakanna eru að vekja athygli á málefninu og veita fræðslu til foreldra, kennara og annarra aðila sem standa þessum hópi nærri. Einnig að vinna að auknum réttindum þessa hóps og styðja við og hvetja til rannsókna á tal- og málþroskaröskun. Enn fremur vilja samtökin vera vettvangur þar sem foreldrar geta hist og borið saman bækur sínar, rætt saman og fengið stuðning hvert af öðru.
Þar sem Málefli er 10 ára í ár munu samtökin standa fyrir ýmsum viðburðum til að halda upp á afmælið og samtímis vekja umræðu um og beina athygli að málþroskaröskun. Málefli vill þannig vekja athygli á málþingi sem samtökin standa fyrir föstudaginn 18. október í tilefni af alþjóðadegi málþroskaraskana. Málþingið hefst kl. 14:00 og verður haldið í Öskju, Sturlugötu 7, Reykjavík. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson mun setja málþingið og í kjölfarið verða ýmsir fyrirlestrar á dagskrá þar sem fjallað verður um málþroska og málþroskaröskun ásamt því að fræða um hagnýt ráð til foreldra og kennara, meðal annars. Nánari dagskrá verður auglýst síðar en aðgangur verður ókeypis og allir velkomnir.
Allir sem áhuga hafa á málefninu eru hvattir til að kíkja á heimasíðu samtakanna www.malefli.is eða finna samtökin á facebook undir nöfnunum Málefli eða Málefli – hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með málþroskaröskun.