Að geta borðað og drukkið er eitt af því sem við tökum sem gefnum hlut í
lífinu, rétt eins og að geta gengið og talað. Við veikindi og slys getur
kynging, þessi „sjálfsagða“ færni, hins vegar skerst. Þá getur fólk ekki lengur
kyngt mat og drykk á skilvirkan og öruggan hátt. Það getur komið fyrir alla
að finna fyrir smávægilegum erfiðleikum við að kyngja, t.d. að svelgjast á
stöku sinnum, en viðvarandi kyngingarvandi er mál sem óráðlegt er að
hunsa. Kyngingartregða í munni og koki (e. oropharyngeal dysphagia) getur
komið fyrir á öllum aldri, hjá bæði börnum og fullorðnum. Algengast er að
kyngingartregða sé afleiðing sjúkdóms, t.d. heilablóðfalls, ýmissa
taugasjúkdóma og krabbameins í höfði og hálsi. Kyngingartregða getur
ágerst smátt og smátt (t.d. í parkinsonsveiki), eða komið skyndilega (t.d. við
heilablóðfall eða höfuðáverka). Hún getur verið allt frá því að vera væg, upp
í að vera mjög alvarleg, jafnvel þannig að viðkomandi geti engu kyngt,
heldur þurfi að fá alla næringu gegnum slöngu (sondu). Kyngingartregða
hefur margvísleg áhrif á daglegt líf, heilsu og lífsgæði, og getur m.a. leitt til
ofþornunar, næringarskorts, lungnabólgu og félagslegrar einangrunar.
Kyngingartregða getur auk þess valdið hættu á að það standi í fólki matur,
þannig að loftvegur lokist og fólk jafnvel kafni.

En hvað er kynging? Kynging er býsna flókið ferli sem krefst virkni og
samhæfingar fjölmargra vöðva og tauga, auk svæða í hvelaheila og
heilastofni. Kynging er ferð fæðu gegnum munn, kok og vélinda og er oft
skipt í þrjú stig: munnstig, kokstig og vélindastig og hefur hvert stig sína
sérstöðu, t.d. er munnstig viljastýrt en kok- og vélindastig ósjálfráð.
Aldurstengdar breytingar á kyngingargetu koma fram hjá flestum upp úr
miðjum aldri, rétt eins og á sjón og heyrn, og hamla fólki yfirleitt lítið í
daglegu lífi. Líkur á kyngingartregðu hins vegar margfaldast í réttu hlutfalli
við líkur á ákveðnum sjúkdómum sem algengari eru meðal eldri aldurshópa
en yngri. Eins og hér hefur verið nefnt getur kyngingartregða haft mjög
alvarlegar afleiðingar á heilsu fólks og brýnt að grípa til viðeigandi
ráðstafana. Talmeinafræðingar hafa margir hverjir sérþekkingu á
kyngingartregðu á munn- og kokstigi. Læknar geta vísað einstaklingum til
talmeinafræðinga sem greina vandann nánar, leggja til úrræði og veita
ráðgjöf til einstaklinga, aðstandenda og heilbrigðisstarfsfólks.
Talmeinafræðinga má finna víða um land, m.a. sjálfstætt starfandi og á
heilbrigðisstofnunum. Þess má geta að á Landspítala og Sjúkrahúsinu á
Akureyri hafa talmeinafræðingar umsjón með sérhæfðum myndrannsóknum
á kyngingargetu á munn- og kokstigi, og veita ráðgjöf í kjölfarið.

Óhætt er að spá aukinni tíðni kyngingartregðu í ljósi breytinga á
aldurssamsetningu þjóðarinnar. Auka þarf vitund almennings og
heilbrigðisstarfsfólks um kyngingartregðu og þau úrræði sem í boði eru til að
auðvelda fólki að nærast á eins öruggan hátt og kostur er.

Elísabet Arnardóttir deildarstjóri talmeinaþjónustu Landspítala