Þóra Másdóttir, lektor í talmeinafræði við Læknadeild, og Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent í talmeinafræði við Heilbrigðisvísinda- og Menntavísindasvið, hafa nú hafið vinnu við nýtt málþroskapróf fyrir yngri grunnskólabörn (6-10 ára). Þær fengu til liðs við sig Irisi Eddu Nowenstein, talmeinafræðing og doktorsnema í íslenskri málfræði, og hlutu þær á dögunum styrk fyrir verkefnið úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur. Styrkurinn verður notaður til að hefja vinnu við málþroskaprófið, m.a. að gera úttekt á þeim prófum sem teljast áreiðanlegust í enskumælandi löndum, skoða hvað hentar til að kanna málþroska íslenskra barna og gera frumdrög að prófþáttum og atriðum.

Frétt um úthlutunina birtist á vef Háskóla Íslands, þar segir meðal annars:

„Iris Edda Nowenstein, doktorsnemi í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlýtur styrk til verkefnis sem hefur það að markmiði að leggja grunn að nýju málþroskaprófi fyrir 6-10 ára íslenskumælandi börn. Slík próf eru nauðsynleg til að greina hvaða börn þurfa á stuðningi að halda vegna málþroskaröskunar, en fyrstu ár grunnskólans skipta höfuðmáli þegar kemur að því að tryggja börnum eins jöfn tækifæri og mögulegt er á síðari skólastigum. Mikil þörf er á nýju og vönduðu greiningartæki því núverandi matstæki fyrir þennan aldurshóp eru annaðhvort úrelt eða felast í óstöðluðum þýðingum. Við hönnun nýs málþroskaprófs verður tekið mið af því sem telst gullstaðall í mælingum á málfærni enskumælandi barna. Þá skiptir öllu máli að gæta að sérkennum íslenskunnar og stöðu hennar í síbreytilegu tækniumhverfi, en nýlegar rannsóknir sýna að málþroskaraskanir geta komið fram með mjög ólíkum hætti eftir tungumálum. Vísindalegt gildi verkefnisins birtist meðal annars í kortlagningu á sérstöðu íslenskunnar í þessu samhengi.“

Á annan tug milljóna til eflingar íslenskri tungu