Sigfús Helgi Kristinsson talmeinafræðingur stundar doktorsnáms við University of South Carolina. Á dögunum hlaut hann veglegan styrk. Styrkurinn er veittur af Leifur Eiríksson foundation sem er sjóður sem styrkir ískenska nemendur til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og bandaríska nemendur til framhaldsnáms á Íslandi.  Sigfús sagði okkur frá því hvernig styrkurinn nýtist og hvað hann er að rannsaka.

Ég er að vinna að nokkrum rannsóknarverkefnum hérna en styrkumsóknin var hugsuð til að sinna doktorsverkefninu. Mig langar að skoða tengslin á milli heyrnrænnar úrvinnslu (fundamental auditory processing), s.s. hvernig heilinn greinir úr hljóðáreiti í tali (speech signal) og hljóðkerfisfræðilegri úrvinnslu (phonemic & phonological processing) hjá einstaklingum með málstol, með það að markmiði að kanna hvernig þessir þættir tengjast málskilningi (sentence comprehension). Endanlegt markmið er sem sagt að rannsaka málskilning en einstaklingar með málskilningsstol bregðast verr við meðferð en einstaklingar sem eru fyrst og fremst með skerta máltjáningu.

Verði þess kostur væri að sjálfsögðu gaman að geta tengt þessa rannsókn með beinum hætti við meðferðarúrræði sem stuðla að því að endurreisa málskilning. Ég skoða þetta út frá mælingum með próftækjum (behavioral analysis) og MRI af heilanum, bæði functional og structural.

Júlíus Friðriksson er leiðbeinandinn minn en er ekki búinn að setja doktorsnefndina endanlega saman enn sem komið er. Einhverjir af meðrannsakendum í C-STAR teyminu koma að líkindum að verkefninu með beinum eða óbeinum hætti. C-STAR er  samstarfsverkefni á milli nokkurra rannsóknarstöðva: University of South Carolina,  University of California Irvine, Johns Hopkins og Medical University of South Carolina. Júlíus leiðir einn rannsóknarlegginn af fjórum og samhæfir svo alla leggina. C-STAR samstarfið miðar að því að rannsaka bata hjá einstaklingum með málstol í kjölfar heilablóðfalls, með yfirfærðu makrmiði um að bta líf, lífsgæði og samskiptafærni essara einstaklinga. Innan samstarfsins stýrir hvert lab sínu undirverkefni sem hægt er að skoða betur á vefsíðu þeirra. Júlíus fékk stóran styrk fyrir nokkrum árum frá NIH (National institute of health) og fór þá í samstarf með Argye Hillis við John’s Hopkins háskóla, Greg Hickok við Háskólann í Kaliforníu, Irvine, og svo Chris Rorden við Háskólann í Suður-Karólínu. Hvert þeirra leiðir ákveðinn hluta rannsóknarverkefnisins. Hér er hægt að lesa meira um C-STAR rannsóknarteymið: https://cstar.sc.edu/research-team/

Hvernig er hefðbundinn dagur hjá þér?

Dagsdaglega er ég í kúrsum og vinn í labinu meðfram því. Það er svona 50/50 skipting en ég er að klára kúrsana í sumar og get þá einbeitt mér að fullu að labinu og doktorsverkefninu. Annars er ég að leggja lokahönd á tvö verkefni. Annað snýr að því að greina hvernig heilaskaði spáir fyrir um getu á setningafræðiprófi; þar notaði ég fyrirliggjandi gögn, m.a. gögn sem safnað var á Íslandi fyrir grein sem Sigga tal (Dr. Sigríður Magnúsdóttir)  skrifaði árið 2013. Niðurstöður úr þessari rannsókn eru í birtingarferli sem stendur. Seinni rannsóknin snýr að fMRI heilavirkni eftir BDNF genatýpu hjá einstaklingum með málstol. Blóðsýni eru greind m.t.t. BDNF gensins og einstaklingar falla ýmist í hefðbundinn eða óhefðbundinn hóp; svo bárum við saman heilavirkni á milli hópanna og í ljós kom að virkni er marktækt meiri í hefðbundna hópnum en þeim óhefðbundna. Þessar niðurstöður þykja nokkuð merkilegar og samsvara niðurstöðum úr rannsóknum á hreyfifærni eftir heilablóðfall en sambærileg rannsókn hefur ekki verið framkvæmd með einstaklingum með málstol áður (heilavirkni var sem sagt mæld í nefniprófi). Loks er ég núna að vinna að verkefni þar sem við skoðum hvort geta til að læra markvisst í þar til gerðum tölvuleik tengist framförum í meðferð, þ.e. hvort brattari lærdómskúrva spái fyrir um svörun við meðferð. Svo stýri ég málstolshópum sem hittast einu sinni í viku þess á milli. Það er sem sagt margt í gangi.

Öll fjölskyldan flutti búferlum hingað til Bandaríkjanna og það hefur gengið vel. Krakkarnir hafa aðlagast betur en við þorðum að vona í rauninni. Öll altalandi á ensku og komin í jafn eðlilega rútínu í skólanum hér og þau voru í heima.Helsta hindrunin er fyrir Huldu eiginkonu mína en hún má ekki vinna meðan ég er í náminu útaf visaleyfinu. Og svo á hitinn það til að vera kæfandi. En annars allt gott!

Við þökkum Sigfúsi fyrir spjallið og óskum honum alls hins besta í doktorsnáminu og því sem framundan er.

-T.S.