Prófið er greiningartæki fyrir talmeinafræðinga til að staðfesta eða útiloka frávik í málþroska. MUB hefur verið í vinnslu frá árinu 2009 og er staðlað á íslenskum börnum. Það er ætlað börnum á aldrinum 2ja-4ra ára.

Prófið kemur í handhægri tösku með myndabók og prófgögnum.
Fjölmargir hafa komið að stöðlun prófsins og má þar nefna nema í talmeinafræðum sem margir gerðu meistaraverkefni sín um stöðlun og áreiðanleika prófsins. Því má segja að prófið sé ávöxtur talmeinafræðideildar, en talmeinafræði hefur verið kennd síðan 2010 við Háskóla Íslands. Frá 2012 hafa rúmlega 50 talmeinafræðingar hlotið löggildingu.

Veg og vanda frá upphafi að prófinu höfðu þau Dr. Þóra Másdóttir, yfirtalmeinafræðingur á HTÍ, Hrafnhildur Halldórsdóttir talmeinafræðingur á HTÍ, Friðrik Rúnar Guðmundsson talmeinafræðingur á HTÍ og Sigurgrímur Skúlason, próffræðingur. Að auki sáu Anna Ósk Sigurðardóttir og Kristín Theodóra,  talmeinafræðingar á HTÍ um hönnun og umgjörð þessa fallega prófs. Það er mikið fagnaðarefni að fá nýtt prófgagn eins og myndirnar sýna, en þær voru teknar í tilefni útgáfu prófsins.