Á dögunum fékk Sonja Magnúsdóttir, talmeinafræðingur á Akureyri, úthlutuðum veglegum samfélagsstyrk frá Norðurorku hf. Styrkinn fékk hún til að útbúa upplýsingarit um áhrif langvarandi snuðnotkunar hjá börnum, áhrif puttasogs og áhrif þess að anda með munninum. Vonast hún til að geta dreift þessum upplýsingum sem víðast, m.a. inn á heilsugæslustöðvar, leikskóla o.s.frv.
Sonja hefur undanfarin ár verið að sérhæfa sig í fæðuinntöku barna og veikleikum á munnsvæði, sem geta tengst langvarandi snuðnotkun, þess að sjúga puttann og að anda með munninum. Hún hefur sótt fjölmörg námskeið og ráðstefnur erlendis þessu tengt, er viðurkenndur S-O-S matarþjálfi og hefur skrifað greinar, m.a. um áhrif tunguhafta og hlutverk tungunnar. Sonja heldur einnig úti síðu á Facebook, Matur og munnur, þar sem hún deilir ýmsum fróðleik þessu tengdu.