Síðari fundur ársins í Evrópuráði talmeinafræðinga (CPLOL) var haldinn í Riga í Lettlandi helgina 21.-22. október sl.  Dagskrá fundarins var óhefðbundin að þessu sinni þar sem á laugardeginum hafði verið boðað til stefnumótunarfundar  undir handleiðslu frá ráðgjafafyrirtækisins Kellen sem er með höfuðstöðvar í Brussel. Unnið í 6-10 manna hópum að því að skilgreina forgangsmál og aðgerðir á 6 sviðum, þ.e. fjármál, félagsgjöld og kosningarétt, stjórnskipun, réttindabaráttu, samskipti og áætlanagerð. Vinnan fór þannig fram að hver fulltrúi tók þátt í hópumræðum um hvert svið í 30 mín í senn en á hverju borði var einn stjórnandi (kallaður „champion“). Þannig fluttu allir sig á milli borða á hálftíma fresti (nema stjórnandinn), en reynt var að haga því þannig hóparnir flyttu sig ekki í heilu lagi á milli. Hvatt var til þess að allir tækju sem virkastan þátt í umræðunum og settu fram þær hugmyndir og athugasemdir sem þeim bjó í brjósti.  Úr varð skemmtileg hugmyndavinna þar sem alls kyns steinum var velt og ýmsum hugmyndum komið á framfæri. Niðurstöðunum var síðan safnað saman og helstu niðurstöður kynntar í lok dags. Stjórn CPLOL mun fá skýrslu unna af ráðgjafafyrirtækinu á næstu vikum og vinna málið áfram með niðurstöður fundarins til hliðsjónar. Næsta vor verða síðan ný lög og nýtt stjórnskipulag lagt fram.

Í niðurstöðum komu fram mörg áhugaverð sjónarmið varðandi kjarna samtakanna, en heilt yfir mátti heyra að allir gera sér grein fyrir að gera þarf breytingar á vinnulagi sem miða að betri nýtingu fjármagns, meiri sýnileika og betri gagnasöfnun sem geti nýst bæði í stjórnmálalegu og klínísku samhengi. Auk þessa, viljum við að CPLOL gagnist líka hinum almenna félagsmanni í Evrópu, t.d. með upplýsingagjöf tengt klínískum málum og málum sem tengjast starfsumhverfi talmeinafræðinga i Evrópu.

Eftir langan vinnudag fór hópurinn út að borða á hefðbundinn lettneskan veitingastað. Vinnan hófst síðan snemma næsta morgun en þá var haldið áfram að vinna í þeim vinnuhópum sem eru starfandi innan samtakanna. Nóg er að gera þar sem allir vinnuhópar verða að ljúka sínum störfum fyrir maí 2019 þar sem þeir verða líklega allir leystir upp eftir þann fund. Þóra stýrir þeirri vinnu sem sem fer fram innan þess hluta sem ræðir menntunarmál en Þórunn hélt áfram að starfa í vinnuhóp á sviði klínískrar vinnu, en sá hópur endurskoðar evrópska skilgreiningu á starfsviði talmeinafræðinga. Vinnuhópur Þórunnar er að leggja lokahönd á sína tillögu að skilgreiningu sem ætlunin er að leggja fyrir næsta aðalfund til samþykktar. Þessi vinna gæti síðan nýst FTÍ við að semja skilgreiningu og nánari lýsingu á starfsviði okkar stéttar hér á Íslandi.