Á aðalfundi Félags talmeinafræðinga á Íslandi 21. 9. sl. var Dr. Sigríður Magnúsdóttir tilnefnd heiðursfélagi.

Sigríður er með doktorsgráðu frá Boston háskóla í talmeinafræði, hún var yfirtalmeinafræðingur á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, vann ötullega að stofnun námsbrautar í talmeinafræði við Háskóla Íslands og hefur kennt og leiðbeint fjölmörgum nemum.

Málþing henni til heiðurs var haldið árið 2016.

Í umsögnum félagsmanna um Sigríði sagði m.a. þetta:

Á sinni löngu starfsævi hefur hún lagt mikið af mörkum til fagsins. Hún hefur sinnt þjálfun, ritað greinar, búið til matstæki og lagt mikla vinnu í námsbraut talmeinafræðinnar við HÍ. Hún hefur einstakt lag á að gefa af sér til annarra og kemur alltaf fram af mikilli virðingu, bæði við kollega og nema.

Sigríður var sem fyrr segir heiðruð með þakklætisvotti frá félaginu og þökkuð óeigingjörn störf í þágu fags og félags, en talmeinafræði er ört vaxandi stétt. Frá árinu 2012 hafa 54 nýir talmeinafræðingar hlotið löggildingu Landlæknisembættisins.

Einnig voru nýir félagar heiðraðir sem og þeir sem hlotið hafa löggildingu 2017 – 2018.