Evrópudagur talþjálfunar var haldinn hátíðlegur þann 6. mars 2017

Að vanda héldu talmeinafræðingar á Íslandi upp á Evrópudag talþjálfunar þann 6. mars. Dagurinn í ár var tileinkaður fæðuinntöku- og kyngingarvandamálum.
Í tilefni dagsins útbjó félagið plakat m.a. til að kynna hið fjölbreytta starf talmeinafræðingsins, breiðan skjólstæðingahóp hans og hina ýmsu vinnustaði. Einnig voru útbúin upplýsingarit fyrir fæðuinntöku- og kyngingarerfiðleika barna annars vegar og fullorðinna hins vegar og verða þeir aðgengilegir á pdf formi á heimasíðunni fljótlega.

Félagsmenn voru hvattir til að kynna daginn fyrir skjólstæðingum sínum og út á við með sem fjölbreyttasta hætti, líkt og starfið okkar er. Gaman var að sjá hvernig félagsmenn héldu upp á daginn, m.a. má nefna að talmeinafræðingar víða um land voru með opin hús, héldu kynningar og fyrirlestra um fjölbreytt málefni og deildu efni tengt starfinu á samfélagsmiðlum.

Til hamingju með daginn talmeinafræðingar!