Aðalfundur var haldinn föstudaginn 23. september.  Í tilefni 35 ára afmælis félagsins var fundurinn með breyttu sniði í ár en haldinn var stefnumótunardagur og voru aðalfundarstörf hluti af deginum.

Dagurinn var vel heppnaður í alla staði og tóku hátt í 40 manns þátt í aðalfundi og/eða stefnumótuninni. Aðalfundarstörf voru með hefðbundnum hætti og var ánægjulegt að sjá hversu vel gekk að manna öll embætti. Erla Agnes Guðbjörnsdóttir gekk úr stjórn og inn kom Ingunn Högnadóttir í hennar stað. Erlu Agnesi eru þökkuð góð störf og Ingunn boðin velkomin í stjórn. Upplýsingar um  stjórn og nefndir munu verða uppfærðar á heimasíðunni.

Stefnumótunardagurinn snerist um 4 viðfangsefni; Skilgreiningu á vinnuálagi, Viðmið um símenntun talmeinafræðinga FTÍ, Skilgreining á stétt talmeinafræðinga og Störf talmeinafræðinga með fjöltyngdum börnum.  Það safnaðist mikið af hugmyndum og ýmsar hliðar mála komu upp eins og venjan er. Niðurstöður verða teknar saman af verkefnastjóra sem mun skila þeim í skýrsluformi.

Að loknum góðum vinnudegi kom Andri Ívarsson með uppistand þar sem hann lék m.a. á gítar og söng frumsamin lög. Er óhætt að segja að hann hafi slegið í gegn og komið öllum til að hlæja.

FTÍ þakkar öllum sem tóku þátt í deginum kærlega fyrir þátttöku sína og hlakkar til að eiga með ykkur farsælt samstarf á komandi mánuðum.