Í síðustu viku var 30. IALP ráðstefnan haldin í Dublin, Írlandi. FTÍ er meðlimur í IALP sem eru alheimssamtök fagfólks og fræðimanna sem koma að tjáskiptum, rödd, talmeinafræði, heyrnarfræði og kyngingu. Ráðstefnan var mjög yfirgripsmikil og snerti á öllum meginþáttum fagsins. Nokkur þemu voru áberandi, innleiðing ICF hugmyndafræðinnar (International Classification of Functioning, Disability and Health), réttur allra til að hafa tækifæri til að tjá sig sem best þeir geta, notkun gagnreyndrar meðferðar í klínísku starfi (Evidence-Based Practice) og stuðningur við þau ríki sem hafa takmarkað aðgengi að talmeinaþjónustu.
Íslendingar voru áberandi á ráðstefnunni. Þórunn Halldórsdóttir, formaður FTÍ, var fánaberi á opnunarhátíð ráðstefnunnar. Elín Þöll Þórðardóttir, prófessor við McGill háskólann í Kanada hélt fjóra fyrirlestra. Bryndís Guðmundsdóttir var með veggspjald um smáforritið KidsSoundLab og tengsl notkunar þess við læsi, Sigfús Helgi Kristinsson var með veggspjald um íslenska þýðingu og forprófun á mælitækinu SAQOL-39g sem metur lífsgæði fólks með og án málstols eftir heilablóðfall, FTÍ var með veggspjald um félagið og Þórunn Halldórsdóttir ásamt nefnd innan Evrópuráðs talmeinafræðinga (CPLOL) var með veggspjald um talmeinaþjónustu fyrir fjöltyngd börn í mismunandi Evrópulöndum. FTÍ er stolt af íslenskum þátttakendum og fjölbreyttum hlutverkum þeirra á ráðstefnunni. Næst verður ráðstefnan haldin árið 2019 í Taiwan og 2022 í Nýja Sjálandi.