Haldinn var félagsfundur á vegum FTÍ. Fyrst var rætt um nýjan samning Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sjúkratrygginga Íslands um talmeinaþjónustu. Svandís Ingimundardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Edda Antonsdóttir forstöðumaður skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu komu og skýrðu frá aðdraganda þessa verkefnis og hvernig þessi nýbreytni er hugsuð. Fram kom að samningurinn er talinn minnka girðingar á milli mennta- og heilbrigðiskerfis í þjónustu við börn með tal- og málþroskafrávik. Þannig verður meiri samfella á milli greiningar og íhlutunar hjá þeim börnum sem flokkast undir ábyrgð Sjúkratrygginga Íslands samkvæmt samkomulagi Sjúkratrygginga Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Talið er auðveldara að fá samfelldari þjónustu fyrir minni sveitarfélög í dreifðari byggðum landsins. Nokkrar umræður sköpuðust um hvað þessi breyting geti þýtt fyrir stöðu sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga en almennt má segja að fleiri stöður talmeinafræðinga og fjölbreyttara atvinnuform sé jákvæð þróun fyrir stéttina og skjólstæðinga talmeinafræðinga.
Á síðari hluta félagsfundar kynnti Þórunn Hanna Halldórsdóttir, formaður FTÍ, þær faglegu lágmarkskröfur sem FTÍ og Embætti landlæknis hafa unnið og voru samþykktar í ágúst sl. Um er að ræða greinargerð sem þarf að skila inn þegar tilkynnt er um rekstur talmeinaþjónustu. Þar er aðallega um að ræða að búið sé að útfæra hvernig heilbrigðisstarfsmaður ætlar að framfylgja þeim lögum og reglugerðum sem snúa að hans starfi, t.d. hvað varðar trúnað, skráningu og varðveislu sjúkraskrár og aðbúnað á starfsstofum. Nokkrar umræður spunnust um efnið og virðist vera að það hafi verið hnökrar á að koma málum í gegn undanfarið. Áætlað er að halda fund með Embætti landlæknis til að ræða það mál fljótlega. Hægt er að skoða glærusýningu Þórunnar sem er hér fyrir neðan. Allir félagsmenn, sér í lagi þeir sem starfa sjálfstætt eru hvattir til að kynna sér þessi mál og passa að þeir uppfylli þær kröfur sem lagaramminn setur þeim.