Þann 18.-19. október var haldinn vinnufundur í München á vegum Evrópusamtaka talmeinafræðinga, CPLOL. Fulltrúar Félags talmeinafræðinga á Íslandi á fundinum voru Þóra Másdóttir og Þórunn Hanna Halldórsdóttir.
Þjóðverjar voru gestgjafar á þessum fundi og var fyrrum CPLOL forseti sem nú er formaður þýsku samtaka talmeinafræðinga gestur á fundinum.
Hópnum er skipt í tvær nefndir, námsnefnd (Education) og nefnd um faglegt starf (Professional Practice). Eins og áður sat Þóra í námsnefndinni og Þórunn í nefndinni um faglegt starf.
Í upphafi fundar fær hvert land tækifæri til að kynna þau málefni sem eru efst á baugi innan samtakanna og varpa spurningum til annarra samtaka. Í þetta sinn bárum við íslensku tegiliðirnir upp spurningu um hvort í öðrum Evrópulöndum séu, eða megi gera, kröfur um tungumálakunnáttu í opinberu máli landsins þegar veita á starfsleyfi til að starfa við talþjálfun. Hér á landi höfum við fengið þær upplýsingar að lög og reglugerðir sem varða frítt flæði vinnuafls um Evrópu hindri að hægt sé að gera slíkar kröfur til umsækjenda um starfsleyfi innan allra heilbrigðisstétta, þ.m.t. talmeinafræðinga. Innan stjórnar CPLOL er tengiliður sem hefur yfirsýn og umsjón með þeim málum sem tengjast starfsleyfum talmeinafræðinga innan Evrópu og var ákveðið að hún, í samvinnu við stjórn, myndu rita bréf með tilvísun í þau lög og reglugerðir innan EB sem leyfa að setja kröfur um tungumálakunnáttu í því tungumáli sem talað er í landinu, ofar reglugerðum um frítt flæði vinnuafls. Ætlunin er að fá fund með Landlækni og ræða þetta þegar við höfum fengið slíkt bréf í hendurnar og aflað fleiri gagna.
Góður tími fór í vinnu innan vinnuhópanna en svo skemmtilega vill til að báðir íslensku tengiliðirnir eru að vinna í vinnuhópum um fjöltyngi. Í vinnuhóp námsnefndarinnar um fjöltyngi er unnið að því að senda út könnun til háskóla í aðildalöndum CPLOL og fá upplýsingar um hvernig staðið sé að kennslu um fjöltyngi í talmeinafræðinámi. Í vinnuhóp nefndar um faglegt starf er verið að skoða hvernig unnið er með þennan hóp í mismunandi löndum og hvort það samræmist þeim verklagsreglum og rannsóknum sem liggja fyrir. Báðir þessir hópar halda áfram vinnu sinni fram til næsta fundar sem haldin verður í Flórens í maí.
Allur hópurinn kom aftur saman í lok fundar og var þá rætt um stóru ráðstefnuna í Flórens sem haldin verður í maí. Búið er að framlengja frestinum til að senda inn efni og eru allir hvattir til að senda inn efni til að kynna á ráðstefnunni:http://www.cplolcongress2015.eu/index.php?quale=2&quale_livello=2
Einnig var rætt um Evrópudag talþjálfunar 6.mars nk. Yfirskrift dagsins er Neurological Communication Disorders. Kýpur hefur útbúið plakat sem allar þjóðir munu hafa aðgang að og geta sett inn texta á sínu tungumáli. Ennfremur voru miklar umræður um slagorð dagsins en niðurstaðan var: Communication is everything: SLT is the key.