Formaður FTÍ boðaði til almenns félagsfundar um nýlegt samkomulag Velferðarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga og þær breytingar sem gætu orðið í kjölfar þess.
Fundurinn var vel sóttur m.v. árstíma, tæplega 20 manns, en vitað var að margir yrðu komnir í sumarfrí og jafnvel farnir á flakk á þessum tíma. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar og megi þeir hafa þökk fyrir boðið.
Þórunn Hanna formaður hóf fundinn á stuttri samantekt á sögu talþjálfunar á vegum sveitarfélaga og ríkisins. Þar ber helst að nefna að sveitarfélög höfðu áður á sínum herðum ákveðnar skyldur gagnvart börnum með tal- og málþroskafrávik innan skólanna en með tilkomu samnings milli talmeinafræðinga og Tryggingastofnunar Íslands (nú Sjúkratrygginga Íslands) varð meiri tilhneiging til að líta á þennan vanda sem heilbrigðisvandamál og því á fjárhagslegri ábyrgð Heilbrigðisráðuneytis. TR/SÍ hefur víkkað út þann hóp sem fellur undir samning frá því að fyrsti samningur var gerður, sem eðlilegt er enda vitneskja um tal- og málmein og afleiðingar þeirra alltaf að aukast. Hins vegar hafa framburðarfrávik og stam verið sett í sérflokk í gegnum tíðina, og SÍ ekki viljað setja sama læknisfræðilegu skilgreininguna á þau mein og má ætla að það sé vegna þess að að áður var talið að orsakir þeirra væru frekar af andlegum en líkamlegum toga. Sveitarfélög hafa hins vegar barist fyrir því að SÍ taki út úr samningi skilyrði um að skóli/sveitarfélag sé búið að sjá barni fyrir 18 tímum í þjálfun. Úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli sem foreldrar höfðuðu gegn SÍ á grunni þessa ákvæðis um 18 tíma greidda fyrst af sveitarfélagi fól í sér að SÍ var ekki heimilt að láta deilu þess og sveitarfélaga um fjárhagslega ábyrgð bitna á skjólstæðingum með tal- og málþroskavandamál. Þannig var þrýst á SÍ og sveitarfélög að koma sér saman um hver beri fjárhagslega ábyrgð.
Það samkomulag sem nú er búið að skrifa undir felur í sér að:
Sveitarfélög gangast við að hafa fjárhagslega og skipulagslega ábyrgð á talmeinaþjónustu við börn sem hafa málþroskatölu á bilinu 81-85, auk vægari framburðarfrávika og vægu stami.
SÍ gengst við fjárhagslegri og skipulagslegri ábyrgð á talmeinaþjónustu við börn með málþroskatölu 80 og lægri, alvarlegri framburðarfrávik og alvarlegri tilvik af stami.
Þetta þýðir að skilyrði um 18 tíma er fellt út og sá hópur sem búið er að skilgreina að þurfi íhlutun talmeinafræðinga hefur heldur verið stækkaður en hitt.
Á fundi sem Þórunn Hanna, Þóra Másdóttir og Þóra Sæunn Úlfsdóttir áttu með fulltrúum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og Sjúkratryggingum (SÍ) kom fram að sveitarfélögin hafa áhuga á að gera samning við SÍ og fá þannig fjármagn til að geta sinn þeim hópi sem fellur undir lið 2. innan skólans. Einnig kom þar fram að sveitarfélögin verða að fara að ráða til sín talmeinafræðinga til að geta sinnt þessum skyldum sínum sem útlistaðar eru í samkomulaginu.
Eftir samantekt formanns var orðið gefið laust og umræður voru líflegar. Aðallega var rætt um hlutverk stofnana, forgangsröðun þjónustu innan kerfisins, vinnulag og álagsþak (case load) og kjaramál. Búið er að stofna vinnuhóp innan félagsins til að ræða þessi mál frekar en hann skipa auk Þórunn Hönnu formanns FTÍ, Anna María Gunnarsdóttir, Bjartey Sigurðardóttir, Inga Huld Þórðardóttir, Þóra Másdóttir og Þóra Sæunn Úlfsdóttir.