Haldinn var vinnufundur hjá Evrópusamtökum talmeinafræðinga, CPLOL, þ. 31.mai og 1. júní sl. en að þessu sinni var hann haldinn á Möltu. Fulltrúar Félags talmeinafræðinga á Íslandi (FTÍ) á fundinum voru Þórunn Halldórsdóttir og Þóra Másdóttir.

Á fundinum voru rædd ýmis atriði sem tengjast starfi talmeinafræðinga og við eigum sameiginleg með talmeinafræðingum um alla Evrópu. Nokkuð var rætt um næstu CPLOL ráðstefnuna sem verður haldinn í Flórens á Ítalíu þ. 8.-9. maí 2015. Verið er að kalla eftir erindum á ráðstefnuna núna og hvetur FTÍ talmeinafræðinga á Íslandi að senda inn fyrirlestra eða veggspjöld, enda tilvalið tækifæri til að kynna íslenskar rannsóknir fyrir kollegum okkar í Evrópu. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á vefsíðu hennar, http://www.cplolcongress2015.eu. Yfirskrift ráðstefnunar er „Open the doors to communication”. Undirbúningsnefndin fyrir ráðstefnuna stendur fyrir leik þar sem þátttakendur svara nokkrum spurningum og geta þannig komist í pott og geta þá unnið frían ráðstefnupassa. Hægt er að taka þátt í leiknum með því að smella á tengil vinstra megin á heimasíðu CPLOL (www.CPLOL.eu).

Að vanda skiptist hópurinn í tvennt, nefnd um menntunarmál (education) sem Þóra tilheyrir og nefnd um faglega þróun starfsins sem Þórunn tilheyrir. Innan hvorrar nefndar eru síðan nokkrir vinnuhópar og svo skemmtilega vill til að við íslensku fulltrúarnir erum báðar í vinnuhópum sem tengjast fjöltyngi, annars vegar hvernig nám í talmeinafræðum undirbýr nemendur til að vinna með fjöltyngda skjólstæðinga og hins vegar hvernig ímynd og starf talmeinafræðinga er í raun gagnvart þessum hópi. Báðir þessir vinnuhópar eru stutt á veg komnir með sína vinnu en vinnan heldur áfram á milli funda og mjakast allt í rétta átt.

Á fundinum kom fram að yfirskrift Evrópudags talþjálfunar 2015 er áunnir taugafræðilegir tjáskiptaerfiðleikar (acquired neurological communication disorders). Við á Íslandi getum því farið að huga að því hvernig við viljum kynna talmeinafræðinga, talþjálfun og málefni þessa skjólstæðingahóps á þessum degi næsta vor þann 6. mars næsta vor. FTÍ auglýsir hér með eftir hugmyndum og fólki sem vill taka þátt í að skipuleggja þennan dag.  Hafið samband við stjórnarmeðlimi eða sendið póst  á talmein@talmein.is.

Auk þessa vinnufundar var haldinn aðalfundur CPLOL á laugardeginum eftir hefðbundna dagskrá. Þar var samþykkt aðild CPLOL að CEPLIS sem eru Evrópsk regnhlífarsamtök ýmissa starfstétta. CEPLIS eru rekin án  hagnaðarsjónarmiða og tala máli fagstétta gagnvart Evrópusambandinu og öðrum evrópskum yfirvöldum. Stjórn CPLOL vonast til þess að aðild að CEPLIS muni stuðla að aukinni vitund almennings í Evrópu um störf talmeinafræðinga og að CPLOL geti sótt þangað ráðgjöf og stuðning varðandi evrópskt regluverk, sér í lagi hvað varðar samræmdar kröfur til starfsleyfi talmeinafræðinga í Evrópu. Að auki var samþykkt fullgild aðild Ungverjalands að CPLOL og Tyrkland var samþykkt sem áheyrnarfulltrúi í CPLOL, sem er fyrsta skrefið til umsóknar um fullgilda aðild.

Malta reyndist mjög góður gestgjafi, sá um að fundurinn yrði haldinn á góðu hóteli og að fundargesti skorti ekkert. Fundargestum var boðið til skoðunarferðar í Medina, sem er gamall bær, umgirtur virkisvegg og býr yfir mikilli sögu. Einnig bauð Félag maltneskra talmeinafræðinga upp á hátíðarmálsverð í gamalli hlöðu þar sem boðið var upp á þjóðlega rétti undir dynjandi maltneskri tónlist og þjóðdönsum. Næsti fundur CPLOL verður haldinn í Munchen í Þýskalandi í október en þangað til vinna allir vinnuhópar í gegnum netpóst og mögulega skype-fundi.