Á aðalfundi stjórnar Málbjargar, félags um stam, síðastliðinn miðvikudag var dr. Jóhönnu T. Einarsdóttur, talmeinafræðingi og dósent við Menntavísindasvið, veitt heiðursverðlaun fyrir árið 2014. Verðlaunin hlýtur Jóhanna fyrir margþættar rannsóknir á stami og að hafa sérhæft sig sem talmeinafræðingur á stami og aðstoðað ófáa Íslendinga um áratugaskeið.

Jóhanna hefur undanfarin ár staðið að uppbyggingu háskólanáms í talmeinafræði á Íslandi og unnið að áðurnefndum rannsóknum á stami. Í umsögn stjórnar Málbjargar segir m.a. að Jóhanna sé afkastamikill fræðimaður. Hún eigi að baki glæstan feril sem vísindamaður og hafi jafnframt sýnt góða færni í að miðla þekkingu sinni til annarra og haft forystu í að skapa alþjóðalega rannsóknarhópa á stami. Hún hafi mótað rannsóknir á Íslandi á stami og stýrt verkefnum þar af einstakri kunnáttu og framsýni sem líkleg sé til að skilja hvað veldur stami og hvernig best er að vinna bug á því.

Félag talmeinafræðinga á Íslandi óskar Jóhönnu til hamingju með þessi heiðursverðlaun.

Frétt af vef Háskóla Íslands: http://www.hi.is/frettir/johanna_verdlaunud_fyrir_rannsoknir_a_stami