Málbjörg – félag um stam á Íslandi hefur fyrirgöngu á að gangsetja tímabundna útvarpsstöð á FM tíðninni 98,3 í einn mánuð og byrjuðu útsendingar stöðvarinnar mánudaginn 3. mars 2014.
Markmið útvarpsstöðvarinnar er að auka sýnileika stams í samfélaginu og skapa jákvæða umræðu um þátttöku þeirra sem glíma við talmein í ljósvakamiðlum.
Þættir útvarps stams verða viðtalsþættir í formi tveggja manna tals við þjóðþekkta landsmenn á sviði viðskipta, menntamála, stjórnmála og lista í íslensku samfélagi ásamt nokkrum erlendum gestum.
Dagskrá Útvarp stams verður öllu jafnan tvisvar á dag. Alla virka morgna frá 08:00 til u.þ.b. 09:00 og öll virk kvöld frá 20:00 til u.þ.b. 21:00. Upptökur verða gerðar aðgengilegar á netinu.
Þáttastjórnandi verður Árni Heimir Ingimundarson en hann hefur glímt við stam frá blautu barnsbeini.