Handbókin Snemmtæk íhlutun í málörvun tveggja til þriggja ára barna er komin í sölu. Hægt er að panta bókina með því að senda tölvupóst með upplýsingum um nafn, heimilisfang og kennitölu greiðanda á tölvupóstfangið snemmtaek.ihlutun@gmail.com.

Verð 6500 kr. auk sendingarkostnaðar.

Handbókin SNEMMTÆK ÍHLUTUN Í MÁLÖRVUN TVEGGJA TIL ÞRIGGJA ÁRA BARNA er afrakstur þróunarverkefnis sem kom til vegna vöntunar á ákveðnum verkferlum í vinnu með ung börn með frávik í málþroska.

Við vinnuna við verkefnið var lögð áhersla á það að búa til gátlista og setja niður á blað hagnýtar og gagnreyndar aðferðir til þess að skilgreina betur málþroskafrávik ungra barna og finna leiðir og úrræði til þess að mæta þörfum þeirra á skilvirkan hátt. Þá er lögð áhersla á aukið foreldrasamstarf og samstarf við starfandi sérfræðinga svo sem talmeinafræðinga, sálfræðinga, sérkennsluráðgjafa, leikskólakennara og annarra sem koma að málefnum barna með málþroskafrávik.

Allir í vinnuhópnum voru sammála um að markvissari úrræði skorti til þess að grípa fyrr inn í málörvun ungra barna með málþroskafrávik og að aðaláherslan ætti að vera á sérstakt úrræði, sem ákveðið var að kalla Bjargir, til þess að byrja að vinna sem fyrst með börnin eftir hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar.

Þeir sem unnu þróunarverkefnið eru: Anney Ágústsdóttir, leikskólastjóri Akrasels, Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur, Bergrós Ólafsdóttir talmeinafræðingur, Margrét Þóra Jónsdóttir, leikskólastjóri Teigasels (fyrrum sérkennslustjóri Akrasels), og Sigurður Sigurjónsson, aðstoðarleikskólastjóri og sérkennslustjóri Akrasels.

Það er einlæg ósk höfunda þróunarverkefnisins að foreldrar, kennarar og aðrir sem vinna með málörvun fyrir ung börn geti nýtt sér þær hugmyndir sem hafa verið þróaðar í þessu verkefni. Megináhersla í allri þessari vinnu er á það að hjálpa ungum börnum með málþroskafrávik með því að byrja nógu snemma með markvissa íhlutun og draga þannig úr þeim afleiðingum sem alvarleg málþroskafrávik geta haft á hegðun, líðan og nám barnsins. Öll börn eiga að hafa sömu tækifæri til þess að fá kennslu og íhlutun við hæfi.