Haldinn var vinnufundur hjá Evrópusamtökum talmeinafræðinga, CPLOL, þ. 19.-20. október sl. og var hann haldinn í París að þessu sinni. Fulltrúar Félags talmeinafræðinga á Íslandi (FTÍ) á fundinum voru Þórunn Halldórsdóttir og Þóra Másdóttir.
Á fundinum voru rædd ýmis atriði sem tengjast starfi talmeinafræðinga og við eigum sameiginleg með talmeinafræðingum um alla Evrópu. Kynnt var næsta ráðstefna sem CPLOL heldur en hún verður haldin í Flórens á Ítalíu 29.-30. maí 2015. Yfirskrift ráðstefnunar er „Interaction, People, Communication Disorders“ . Ennfremur voru niðurstöður Netques-verkefnisins kynntar, en það er 3 ára verkefni sem CPLOL stóð fyrir en því lauk formlega í september sl.  Netques gekk út á að samræma gæðastaðla á nám í talmeinafræði og hefur Valdís Guðjónsdóttir verið okkar fulltrúi í því verkefni. Valdís mun kynna þetta verkefni fyrir meðlimum FTÍ á félagsfundi eftir áramót.
Á CPLOL vinnufundum skiptist hópurinn í tvennt, nefnd um menntunarmál (education) sem Þóra tilheyrir og nefnd um faglega þróun í starfi (professional practice) sem Þórunn tilheyrir. Ýmsir smærri vinnuhópar eru í gangi innan hvorrar nefndar s.s. hópur um fjarþjálfun, hagfræðilega þætti og hvernig bæta megi nýtni fjármagns í talþjálfun og samvinnu við aðrar stéttir. Þórunn tók sæti í nýjum vinnuhóp um fjöltyngi sem mun taka saman ýmis gögn sem gefin hafa verið út í Evrópu varðandi þann hóp. Þóra hóf einnig  vinnu  við nýtt verkefni sem ætlar að skoða hvernig formleg fræðsla um fjöltyngi og fjölmenningu er til háskólanemenda í talmeinafræði í Evrópu. Ætlunin er að senda könnun til háskólasamfélagsins.
Á fundinum kom fram að yfirskrift Evrópudags talþjálfunar 2014 er Fjöltyngi og hefur slagorð dagsins verið ákveðið „Many languages, many cultures, one communication!“  Við á Íslandi getum því farið að huga að því hvernig við viljum kynna okkur og þessa skjólstæðinga okkar á þessum degi í vor en hann verður haldinn þann 6. mars eins og áður hefur verið. FTÍ auglýsir hér með eftir hugmyndum og fólki sem vill taka þátt í að skipuleggja þennan dag.  Hafið samband við stjórnarmeðlimi eða sendið póst  á talmein@talmein.is.