Ráðstefna bandarísku systursamtaka okkar, ASHA, var haldin 18.-20. nóvember sl. Mikið úrval fyrirlestra og styttri kúrsa var í boði að vanda en slegið var met í þáttöku á ráðstefnunni þetta árið en á hana mættu um 15 þús manns sem er um 1500-2000 fleiri þáttakendur en verið hefur sl. ár.
Stór hópur Íslendinga var á ráðstefnunni og þegar stjórnarmenn ASHA heyrðu af því þótti þeim ástæða til að hitta hópinn og boðuðu okkur á fund sinn. Fyrir hönd ASHA mættu Patricia Prelock forseti ASHA, Arlene Pietranton framkvæmdastjóri ASHA, Lily Schuermann yfirmaður International Programs, Lemmietta McNeilly fulltrúi talmeinafræðinga í framkvæmdastjórn og Joseph Cerquone yfirmaður almannatengsla.  Allir Íslendingarnar sem staddir voru á ráðstefnunni mættu á fundinn, alls 19 manns en þar af voru 5 manns sem búa í Bandaríkjum og Kanada.  Ekki er hægt að segja annað en að maður hafi verið stoltur af því að tilheyra þessum  hópi þar sem við áttum nokkra fyrirlesara, póster-kynningu og sölukynningu á smáforriti.  Greinilegt er að ASHA vill auka alþjóðlegt samstarf og félagsmenn frá öðrum löndum. Búið er að stofna Special Interest Group innan ASHA sem tekur á alþjóðamálum og alþjóðlegu samstarfi en yfirskrift hans er Global Issues in Communication Sciences and Related Disorders. Á fundinum voru íslensku félagarnir hvattir til að skrá sig í þann hóp og taka þátt í umræðunum þar.
Nokkur önnur mál voru rædd s.s. að íslenskir talmeinafræðingar geta ekki gengið í ASHA sem alþjóðlegir félagsmenn fyrr en þeir hafa náð sér í 2 ára starfsreynslu.  Einnig var á þessum fundi, og öðrum sem Þóra Sæunn Úlfsdóttir og Þórunn Halldórsdóttir áttu með Joe Cerquone daginn eftir, ræddir möguleika á samnýtingu kynningarefnis frá ASHA á Íslandi. Fundirnir voru báðir vel heppnaðir og gott skref í átt að frekari samskiptum og samstarfi á milli ASHA og Félags talmeinafræðinga á Íslandi.