Þann 12. júní sl. var haldin stofnfundur Fagdeildar talmeinafræðinga í Fræðagarði. Þessi stofnfundur var haldinn í kjölfar funda sem við höfum átt með stjórn og formanni Fræðagarðs þar sem ræddar hafa verið leiðir til að fá leiðrétta lága grunnröðun talmeinafræðinga í launaflokka og benda á þann breytileika sem er í launum á milli stofnana.
Tilgangur fagdeildarinnar er þríþættur:

  • Að bæta upplýsingaflæði á milli talmeinafræðinga og stjórnar og starfsmanna Fræðagarðs
  • Að koma sjónarmiðum og kröfugerðum talmeinafræðinga á framfæri til samninganefnda Fræðagarðs og BHM
  • Að standa fyrir kynningum til talmeinafræðinga um starfsemi Fræðagarðs og BHM, réttindi félagsmanna, kjaramál og annað sem tengist talmeinafræðingum.

Mikil þörf er á umræðu um kjaramál talmeinafræðinga sem vinna hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og nokkuð verk óunnið í því að leiðrétta kjör á mörgum stöðum. Ennfremur vantar oft upp á að félagsmenn þekki réttindi sín hjá Fræðagarði og viti að þangað sé hægt að leita með ýmis mál. Oft vita menn jafnvel ekki hvernig laun þeirra eru ákvörðuð og telja sig hafa lítið að segja um þau.
Á fundinum voru kosnir tveir tengiliðir talmeinafræðinga við stjórn Fræðagarðs sem hafa umboð hópsins til að leggja fram sjónarmið og kröfur talmeinafræðinga. Þeir eru: Ingunn Högnadóttir, kosin til 2 ára og Rannveig Rós Ólafsdóttir, kosin til 1 árs.