Evrópudagur talþjálfunar var 6. mars sl. og var afskaplega ánægjulegt að sjá hversu vel félagsmenn tóku við sér og voru tilbúnir að gera sitt til að halda daginn hátíðlegan. Vakin var athygli á deginum og málefninu með greinum í dagblöðum, fréttatilkynning var send á alla fjölmiðla og til hinna ýmsu stofnana sem skjólstæðingar okkar tengjast og fésbókin var einnig heilmikið notuð til að vekja athygli á málinu. Félagsmenn voru duglegir við að deila út seglum til skjólstæðinga, í skólum og leikskólum, á heilbrigðisstofnunum og skólaskrifstofum og eru þeir 1000 seglar sem pantaðir voru nær uppurnir. Myndband sem nemar í talmeinafræði gerðu með Margréti Samúelsdóttur í fararbroddi hefur fengið næstum 900 áhorf eftir og mun lifa áfram á vefnum. Á mörgum stöðum voru starfsstöðvar skreyttar og boðið upp á veitingar og allir félagsmenn tilbúnir til að halda daginn hátíðlegan. Veðrið setti vissulega strik í reikninginn fyrir okkur en ég veit þó að í mörgum tilvikum var dagurinn framlengdur og dagarnir á eftir teknir í að ýta undir kynningu á málefninu. Því miður þurfti að fresta kvöldsamkomunni vegna veðurs en hún hefur þó alls ekki verið slegin af og mun verða auglýst fljótlega hvar og hvenær hún verður haldin.

Það er ekki nokkur vafi á því að svona dagur hefur heilmikið gildi fyrir talkennara og talmeinafræðinga sem hóp, auk þess að kynna fagstétt okkar og aðstæður skjólstæðinga. Það verður því gaman að fylgjast með þessum degi halda áfram að vaxa og dafna um ókomin ár og verða að föstum lið í huga félagsmanna.