Undanfarin níu ár hefur verið haldið upp á dag talþjálfunar í Evrópu þann 6. mars og í ár munum við talmeinafræðingar gera okkur dagamun í tilefni dagsins. Þema evrópudagsins í ár er sértæk málþroskaröskun, lestur og skrift.
Rannsóknir benda til að um það bil 8% barna eru með sértæka málþroskaröskun en hún birtist í erfiðleikum í tjáningu, málskilningi eða hvoru tveggja. Börn með sértæka málþroskaröskun þroskast að mestu leyti á dæmigerðan hátt nema á sviði máls og tals, þau eru með eðlilega heyrn, hreyfingar eru eins og jafnaldra og allur taugaþroski eðlilegur, nema hvað varðar mállega þætti. Undir þessa mállegu þætti falla t.d. orðaforði, málfræði, setningauppbygging og málnotkunarreglur.
Rannsóknir bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt fylgni milli málþroskamælinga á leikskólaaldri og námsárangurs síðar meir. Þegar börn með sértæka málþroskaröskun hefja skólagöngu hafa þau frá fyrsta degi minni möguleika á að tileinka sér námsefnið en skólafélagarnir því þau hafa ekki það vald á máli og tali sem miðað er við að sex ára börn hafi. Mörg þessara barna eiga erfitt með að læra að lesa meðal annars vegna frávika í málþroska og erfiðleika við að tileinka sér undirstöðuatriði lesturs. Þar með er hætta á að hafinn sé ferill neikvæðara upplifana í skólanum; erfiðara getur gengið að að læra að lesa sér til gagns og ánægju og þar með að tileinka sér námsefnið.
Talmeinafræðingar veita leikskólabörnum og skólabörnum með málþroskaröskun sértæka þjálfun til að styðja við framfarir í málþroska. Auk þjálfunar þurfa þau skilning, hvatningu og stuðning frá umhverfinu á leið sinni í gegnum námið. Þar þurfa allir í umhverfi barnsins að taka höndum saman, foreldrar, fjölskylda, kennarar, skólastjórnendur, talmeinafræðingur og aðrir sem eiga í samskiptum við barnið.