Þann 24. janúar sl. fór fram atkvæðagreiðsla um þingsályktunartillögu þess efnis að mennta- og menningarmálaráðherra yrði falið að endurskoða málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun. Þingmennirnir Jónína Rós Guðmundsdóttir og Einar K. Guðfinnsson héldu góðar framsöguræður fyrir þingsályktunartillögunni, auk þess sem Unnur Brá Konráðsdóttir mælti með tillögunni fyrir atkvæðagreiðsluna. Heyra mátti að frum- og meðmælendur höfðu kynnt sér málið vel og töluðu af þekkingu og innsæi.  Ánægjulegt var að tillagan var samþykkt með 42 af 42 atkvæðum sem sýnir vilja alþingis til að gera betur í málefnum þessa hóps. Í þingsályktunartillögunni var lögð áhersla á að málefni barna og ungmenna með tal og málþroskaröskun séu skoðuð heildstætt hér á landi og að niðurstöðum skýrslu sem gerð var fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið verði fylgt eftir með það að markmiði að ráðist verði í úrbætur. Lesa má grein Unnar Brá um þar sem hún mælir fyrir málinu hér.
Félag talkennara og talmeinafræðinga fagnar mjög niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á alþingi og vonast til að þetta sé fyrsta skrefið í að bæta hag barna og ungmenna með tal- og málþroskaraskanir.